Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. maí 2024 Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

75 ára afmæli Evrópuráðsins fagnað á ráðherrafundi í Strassborg

75 ára afmæli Evrópuráðsins fagnað á ráðherrafundi í Strassborg - mynd© Council of Europe

Mikilvægi samstöðu Evrópu um áframhaldandi stuðning við Úkraínu og efling lýðræðis og mannréttinda í álfunni bar hæst á ráðherrafundi Evrópuráðsins sem fram fór í Strassborg í dag. Um þessar mundir eru 75 ár liðin frá stofnun Evrópuráðsins, og var tímamótunum fagnað sérstaklega á ráðherrafundinum í dag.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Utanríkisráðherra Liechtenstein var gestgjafi fundarins, sem formennskuríki ráðsins, en Litháen tók við formennskukeflinu í dag. 

Á fundinum var sérstaklega fjallað um eftirfylgni Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem samþykkt var á fjórða leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí 2023. Í umræðum var lögð áhersla á að margt hafi þegar áunnist sem lagt var upp með í samþykktum leiðtogafundarins, meðal annars stofnsetning tjónaskrár fyrir Úkraínu og endurbætt skipulag Evrópuráðsins á sviði umhverfismála og mannréttinda ásamt því að leggja aukna vinnu í að berjast gegn lýðræðislegu bakslagi. Ræðumenn lögðu ríka áherslu á hve mikilvægur leiðtogafundarinn í Reykjavík hefði verið. 

Í ávarpi sínu lagði Guðmundur Ingi áherslu á mikilvægi þess að standa áfram vörð um lýðræðisleg gildi, mannréttindi og réttarríkið. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að samþykktir leiðtogafundar Evrópuráðsins væru innleiddar, meðal annars er varða stuðning við Úkraínu og eflingu lýðræðis í Evrópu.  Jafnframt undirstrikaði ráðherra mikilvægi þess að samstaða ríki innan Evrópuráðsins vegna núverandi og komandi áskorana, sér í lagi hvað varðar umhverfismál og gervigreind, en á fundinum var samþykktur nýr alþjóðlegur samningur þess efnis. Þá lagði ráðherra ríka áherslu mikilvægi þess að standa vörð um réttindi hinsegin fólks og bregðast við bakslagi á því sviði innan Evrópu og á alþjóðavettvangi. 

„Á ráðherrafundi Evrópuráðsins fengu þjóðir Evrópu tækifæri til að koma saman og ræða hvernig best er að mæta helstu áskorunum nútímans þegar kemur að því að tryggja mannréttindi allra í álfunni,“ segir félags- og vinnumarkaðsráðherra. „Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikil og jákvæð áhrif leiðtogafundurinn í Reykjavík hefur haft á starfsemi Evrópuráðsins. Á stórum tímamótum sem þessum, þegar 75 ár eru liðin frá stofnun Evrópuráðsins, er því Reykjavíkuryfirlýsingin mikilvægt veganesti sem nýtist í að skoða og móta hvernig ráðið getur talað til framtíðarkynslóða.“

Guðmundur Ingi átti einnig fund með skrifstofu Evrópuráðsins sem fer með réttindi hinsegin fólks og ræddi samstarf Íslands við skrifstofuna. Þar voru nýjar aðgerðir íslenskra stjórnvalda í réttindum hinsegin fólks, sem skilaði Íslandi öðru sæti á Regnbogakorti ILGA og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu, m.a. til umræðu. Niðurstöðurnar voru kynntar á árlegum samráðsfundi IDAHOT+ FORUM en síðasti slíkur fundur var haldinn á Íslandi sem hluti af formennsku Íslands í Evrópuráðinu í maí á síðasta ári.

Þess má að lokum geta að utanríkisráðherra Liechtenstein afhenti forsætisráðherra Litháen við formennskuskiptin í dag útskorinn fundarhamar eftir listakonuna Sigríði Kristjánsdóttur. Ísland gaf Evrópuráðinu hamarinn á leiðtogafundinum í Reykjavík í fyrra. Fyrirmynd hamarsins er frægur fundarhamar Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara.

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt utanríkisráðherra Liechtenstein og aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins við upphaf ráðherrafundar Evrópuráðsins í Strassborg í morgun.  - mynd
  • Hollendingar minntu með Regnbogakjól á að samkynhneigð er enn refsiverð í mörgum ríkjum heims (kjóllin samanstendur af þjóðfánum þeirra ríkja).  - mynd
  • 75 ára afmæli Evrópuráðsins fagnað á ráðherrafundi í Strassborg - mynd úr myndasafni númer 3
  • Utanríkisráðherra Liechtenstein afhendir forsætisráðherra Litáen íslenska fundarhamarinn. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum