Hoppa yfir valmynd
17. maí 2024 Brussel-vaktin

Stefnumörkun ESB til næstu fimm ára

Að þessu sinni er fjallað um:

  • undirbúning að stefnumörkun ESB til næstu fimm ára
  • áhuga ungs fólks á komandi kosningum til Evrópuþingsins
  • tilmæli og leiðbeiningar um hvernig hraða megi uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa
  • vorspá um efnahagshorfur í ESB og á evrusvæðinu
  • Schengen-stöðuskýrslu fyrir starfsárið 2023-2024
  • aukna samstöðu á sviði netöryggismála

Stefnumörkun ESB til næstu fimm ára

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Stefnumótunarferlið framundan
  • Ný fimm ára stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB – hvers má vænta?
  • Innlegg Danmerkur í yfirstandandi stefnumótunarvinnu
  • Nánar um hagvarnir ESB og efnahagslegt öryggi
  • Niðurlag

Inngangur

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram 6. – 9. júní nk., sbr. nánari umfjöllun um kosningarnar í Vaktinni 3. maí sl. Í framhaldi kosninganna tekur við nýtt fimm ára stefnumótunar- og löggjafartímabil innan ESB.

Undangengið tímabil hefur einkennst af viðbrögðum við tveimur meiri háttar krísum, þ.e. kórónuveirufaraldrinum annars vegar og árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu hins vegar. Áskoranir sem fylgt hafa þessum krísum hafa verið af þeirri stærðargráðu að þær hafa í reynd knúið aðildarríki ESB til nánara samstarfs á ýmsum sviðum. Á tímum kórónuveirufaraldursins reyndi mjög á aukið samstarf á sviði heilbrigðismála og hefur sú brýna þörf fyrir samstöðu og samstarf sem þar raungerðist leitt af sér nýja vídd í Evrópusamstarfinu á vettvangi ESB og jafnframt á vettvangi EES, sbr. stefnumörkun ESB á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Ísland, á grunni þess nána samstarfs sem það hefur við ESB á grundvelli EES-samningsins, naut mikils ábata af þessu samstarfi á tímum faraldursins, meðal annars við bóluefnainnkaup. Þá hefur Ísland jafnframt leitað eftir þátttöku í því aukna samstarfi sem unnið hefur verið að síðan á vettvangi sambandsins á heilbrigðissviðinu, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 21. október 2022, um nýjar reglur um neyðar- og viðbragðsstjórnun ESB á sviði heilbrigðismála.

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og sú þróun á sviði alþjóðasamskipta og -viðskipta hefur síðan knúið á um og eftir atvikum skapað krefjandi ákall um enn frekari samhæfingu og samstarf á milli aðildarríkjanna, þar sem raunsæispólitík, framar öðru, ræður ríkjum, svo sem nánar er vikið að hér að neðan. En fyrst nokkur orð um stefnumótunarferlið sem er framundan.

Stefnumótunarferlið framundan

Það leiðir af sáttmálum um Evrópusambandið (The Treaty on European Union – TEU) að úrslitum kosninga til Evrópuþingsins er ætlað að leggja tiltekin lýðræðislegan grunn að heildarstefnumörkun ESB fyrir hvert stefnumótunartímabil. Hið eiginlega og efnislega stefnumótunarhlutverk er hins vegar á hendi framkvæmdarvaldsarms ESB, þ.e. leiðtogaráðs ESB í grunninn og svo í framhaldinu og í nákvæmari útfærslu á hendi framkvæmdastjórnar ESB, og ráðherraráðs ESB.

Ferlið við gerð nýrrar heildarstefnumörkunar fyrir ESB í framhaldi af kosningum til Evrópuþingsins á sér í grófum dráttum stað í eftirfarandi skrefum:

  1. Með útgáfu fimm ára stefnuáætlunar leiðtogaráðs ESB (e. Strategic Agenda), en við frágang þeirrar áætlunar ber leiðtogaráðinu að hafa hliðsjón af niðurstöðum afstaðinna kosninga til Evrópuþingsins.
  2. Með stefnuáherslum (e. political guidelines) tilnefnds forseta framkvæmdastjórnar ESB sem hann kynnir Evrópuþinginu áður en kosning fer fram um kjör hans í embættið, sbr. til hliðsjónar áherslur sem Ursula von der Leyen kynnti þinginu sumarið 2019 eftir að hún hafði hlotið tilnefningu í embættið. Stefnuáherslur tilnefnds forseta taka eðli málsins samkvæmt mið af stefnuáætlun leiðtogaráðsins sem aftur taka mið af úrslitum kosninganna. Stefnuáherslur tilnefnds forseta þurfa síðan jafnframt, vitaskuld, að samræmast áherslum eða því málefnasamkomulagi sem náðst hefur á meðal þess meiri hluta þingmanna og þingflokka innan Evrópuþingsins sem hyggst styðja tilnefndan forseta í kjörinu.
  3. Með útgáfu fimm ára stefnuáætlunar (e. Commission priorities for 2024 - 2029) nýrrar framkvæmdastjórnar ESB. Gert er ráð fyrir að stefnuáætlun nýrrar framkvæmdastjórnar sé í línu við stefnuáætlun leiðtogaráðsins en jafnframt í sátt við Evrópuþingið eða að minnsta kosti meiri hlutann á Evrópuþinginu sem stendur að baki kjöri forseta framkvæmdastjórnarinnar og að baki skipan framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni, sbr. framangreint (framkvæmdastjórnin gefur síðan út árlegar starfsáætlanir (e. work programmes) út áætlunartímabilið sem fela í sér nánari útfærslu og aðgerðir).
  4. Þá er loks gert ráð fyrir að áætlanir formennskuríkis í ráðherraráði ESB á hverju hálfs árs tímabili lúti að framgangi framangreindrar heildarstefnumörkunar, enda þótt áherslur formennskuríkis í hverju tilviki, kunni einnig eftir atvikum að eiga þar sinn sess.

Undirbúningur nýrrar fimm ára stefnuáætlunar ESB

Eins og vikið er að í inngangi þá hafa krísur síðastliðinna ára og þá einkum árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og sú aukna spenna í samskiptum ríkja og ríkjabandalaga sem fylgt hafa í kjölfarið leitt af sér afgerandi áherslubreytingar er kemur að þróun stefnumörkunar á fjölmörgum sviðum innan ESB síðastliðin tvö ár. Þessar breyttu áherslur eru jafnan kenndar við það sem nefnt hefur verið strategískt sjálfræði ESB (e. EU Strategic Autonomy) eða eftir atvikum opið strategískt sjálfræði ESB (e. EU open Strategic Autonomy). Með hugtakinu er vísað til þess að við stefnumótun og töku ákvarðana á vettvangi ESB skuli ávallt gæta að sjálfstæði og frelsi ESB til athafna, eða með öðrum orðum getu sambandsins til að standa á eigin fótum og vera óháð öðrum, ef á reynir, til lengri og skemmri tíma. Um leið felst í hugtakinu yfirlýsing um vilja ESB til að vinna með öðrum ríkjum og ríkjabandalögum að því marki sem unnt er, án þess að sjálfræðinu sé raskað. Áherslur í þessa veru hafa snertifleti við fjölmörg málefnasvið, svo sem lyfjamál, fjarskiptamál, fæðuöryggismál en snúa þó ef til vill með hvað skýrustum hætti að tveimur málefnasviðum þ.e. hagvörnum og efnahagsöryggi og samkeppnishæfni annars vegar og varnar- og öryggismálum hins vegar.

Framangreindar áherslur komu fyrst fram meðan faraldurinn geisaði og strax í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu var ljóst að áfram yrði haldið á sömu braut, sbr. Versalayfirlýsingu leiðtogaráðs ESB (e. Versailles Declaration) sem samþykkt var á fundi ráðsins 10. og 11. mars 2022. Þessar áherslur voru síðan áréttaðar í bréfi forseta leiðtogaráðs ESB, Charles Michel, frá 23. júní sl., og áréttaðar skýrlega í Granadayfirlýsingu ráðsins (e. Granada declaration) sem gefin var út í framhaldi af óformlegum fundi ráðsins 6. október sl., en þeirri yfirlýsingu var ætlað að marka upphaf umræðu og undirbúning að nýrri fimm ára stefnuáætlun ráðsins, sbr. nánari umfjöllun um fund ráðsins og efni þeirrar yfirlýsingarinnar í Vaktinni 13. október sl. Eins og umræðan hefur þróast verður vart annað séð en að yfirlýsingin og þau efnisatriði sem þar eru tilgreind hafi gott forspárgildi um efni væntanlegar stefnuáætlunar leiðtogaráðsins til næstu fimm ára, sbr. m.a. nýja skýrslu Enrico Letta, forseta Jacques Delors stofnunarinnar og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, um framtíð innri markaðarins, sem unnin var að beiðni leiðtogaráðsins en fjallað var um skýrsluna í Vaktinni 19. apríl sl. Þannig er þess að vænta að efni nýrrar áætlunar muni í ríkum mæli snúa að efnahagslegu öryggi, viðnámsþoli og samkeppnishæfni innri markaðarins, orkusjálfstæði, eflingu iðnaðarstarfsemi, öryggi og fjölbreytni aðfangakeðja, lyfjaöryggismálum, vísinda- og tæknimálum og síðast en ekki síst að utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Loftslags- og umhverfismál og græn umskipti, sem og stafræn umskipti, verða þó einnig væntanlega og eftir sem áður í öndvegi en þó hugsanlega í ríkari mæli á forsendum efnahagslegs öryggis, orkuöryggis og eflingu græns iðnaðar auk þess sem vænta má að haldið verði áfram að beita afli innri markaðarins til að knýja á um framfarir á sviði umhverfismála, sem og á sviði mannréttindamála, bæði innan og utan innri markaðarins, þ.e. gagnvart þriðju ríkjum. Af þeim sökum, en einnig í tengslum við áherslur á sviði hagvarna og öryggis- og varnarmála, má búast við því að þverlæg stefnumótun og reglusetning verði áfram algeng. Með þverlægri stefnumótun og reglusetningu er átt við þau tilvik þar sem ESB-gerðir lúta bæði í senn að leikreglum á innri markaðinum og reglum er varða aðra stefnumörkun á öðrum sviðum, t.d. utanríkisstefnu ESB eða viðskiptum við þriðju ríki, sbr. m.a. umfjallanir Vaktarinnar um framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans í Vaktinni 10. febrúar sl. og 24. mars sl., sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni um 27. janúar sl. um viðbrögð ESB við nýjum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum, eða svonefndri IRA löggjöf Bandaríkjanna (e. US Inflation Reduction Act), sbr. einnig nýja efnahagsöryggisáætlun ESB sem fjallað var um í Vaktinni 23. júní sl. Slík þverlæg stefnumótun og reglusetning felur jafnan í sér áskoranir við rekstur EES-samningsins, sbr. umfjöllun um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins í Vaktinni 24. nóvember sl.

Með hliðsjón af framangreindu er viðbúið að ný stefnuáætlun leiðtogaráðsins verði eilítið frábrugðin þeirri áætlun sem leiðtogaráðið samþykkti að loknum Evrópuþingskosningunum í júní árið 2019 fyrir árin 2019 – 2024. Við gerð þeirrar áætlunar óraði vitaskuld engan fyrir því sem framundan var með heimsfaraldri kórónuveiru, stríðsátökum, orkukreppu og kreppu í alþjóðasamskiptum í þeim mæli sem raun ber vitni og ber áætlunin þess merki. Að sama skapi bendir allt til þess að ný stefnuáætlun leiðtogaráðsins muni litast mjög af framangreindum atburðum sem ekki sér fyrir endann á og þeim áherslum sem raktar hafa verið.

Innlegg Danmerkur í yfirstandandi stefnumótunarvinnu

Danska ríkisstjórnin kynnti í byrjun maí sl. áherslur sínar í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú stendur yfir. Í áhersluskjalinu kemur fram sú afstaða að ESB standi nú frammi fyrir mestu áskorunum frá stofnun sambandsins er kemur að alþjóðasamskiptum og utanríkismálum í víðum skilningi (e. geopolitical challenges). Í því óvissuástandi sem nú ríkir sé þörf fyrir sterkt ESB sem hafi getu og vilja til að standa vörð um hagsmuni ESB, ekki hvað síst í þeirri ágengu alþjóðlegu samkeppni sem nú viðgengst. Lögð er áhersla á að ESB verði að taka ábyrgð á eigin öryggi og varnarmálum og að landamæri ESB verði styrkt. Efla þurfi samkeppnishæfni innri markaðarins með því að draga úr reglubyrði og einfalda regluverk. Þá er lögð áhersla á orkuöryggi og aukna græna orkuframleiðslu og að ESB verði að koma með afgerandi hætti að uppbyggingu grænna orkuinnviða á sjó og er bent á að Norðursjór geti orðið græn orkumiðstöð ESB (e. green power plant of Europe), en til þess þurfi sameiginlegt fjárfestingarátak af hálfu ESB í innviðum. Þá kemur fram að stækkunarstefna ESB kalli á skilvirkari úrræði til að tryggja samheldni, sameiginleg gildi, lýðræði og réttarríkið.

Danmörk mun taka við formennsku í ráðherraráði ESB á seinni hluta næsta árs, 2025.

Nánar um hagvarnir og efnahagslegt öryggi

Hugveita Evrópuþingsins (EP Think Tank) birti nýverið ítarlega greiningu á hagvörnum ESB. Í greiningunni, sem unnin var að beiðni þingnefndar Evrópuþingsins um milliríkjaviðskipti, er farið yfir núverandi framkvæmd og jafnframt rýnt í mögulega þróun á þessu sviði. Rýnt er í mismunandi nálgun þriðju ríkja er kemur að hagvörnum og er sérstaklega er fjallað um Bandaríkin (BNA), Kína og Japan í því samhengi. Er það niðurstaða greiningarinnar að ESB hafi verið seinni til en helstu keppinautar til að þróa úrræði á sviði hagvarna. Mikilvæg skref hafi á hinn bóginn verið stigin með tilkomu nýrrar efnahagsöryggisáætlunar ESB sem kom út í júní á síðasta ári, sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 23. júní sl. Er það niðurstaða greiningar á stefnunni og framkvæmd hennar að ESB hafi dregið lærdóma af því hvernig BNA og Japan hafi hagað sínum hagvörnum. Eftir sem áður standi ESB frammi fyrir stórum áskorunum á þessu sviði og lúta þær fyrst og fremst að skorti á samhæfingu og samþættingu á mikilvægum sviðum hagvarna sem eru enn sem komið er að miklu leyti á forræði hvers aðildarríkis fyrir sig, en skilvirk beiting slíkra varna velti hins vegar á því að aðildarríki ESB beiti sér með samhentum hætti. Sjá í þessu samhengi m.a. umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. um uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB (e. Capital Markets Union). Er það niðurstaða greiningarskýrslunnar að aðildarríkin þurfi að skuldbinda sig til að framfylgja efnahagsöryggisáætluninni og móta sameiginlega utanríkisstefnu sem styður við hana.

Niðurlag

Atburðir undanfarinna ára og sú staða og áskoranir sem nú eru uppi, einkum vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og þróunar í milliríkjasamskiptum, hafa leitt ESB að krossgötum, ef svo má segja, er kemur að stefnumörkun og þróun sambandsins á mikilvægum sviðum til næstu ára. Eins og rakið er að fram, sbr. jafnframt umfjöllun Vaktarinnar 3. maí sl. um Evrópuþingskosningarnar, bendir flest til þess að stefnan verði tekin í átt til frekari samþættingar og samhæfingar enda þótt ekkert sé gefið í þeim efnum. Í öllu falli er ástæða til að gæta vandlega að stöðu Íslands í því þróunarferli sem er framundan og hvernig best verði staðið vörð um hagsmuni landsins á vettvangi EES-samningsins og jafnframt að hvaða marki Ísland eigi að taka þátt samstarfsverkefnum ESB, óháð því hvort slík þátttaka verði beinlínis felld undir samningsinn eða ekki, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 19. apríl sl. um nýja norska skýrslu um þróun EES-samningsins en þar kemur fram sú afstaða að Noregi beri að leita eftir aðild að nýjum samstarfsáætlunum ESB á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála óháð því hvort slíkt samstarf falli undir EES-samninginn eða ekki. Sjá einnig í þessu samhengi umfjöllun Vaktarinnar 15. mars sl. þar sem fjallað er um nýja stefnumótun ESB á sviði varnarmála.

Áhugi ungs fólks á komandi kosningum til Evrópuþingsins

Ný könnun um afstöðu ungs fólks til lýðræðismála gefur til kynna mikinn áhuga ungu kynslóðarinnar á komandi á kosningum til Evrópuþingsins. Þannig segjast 64% ætla að nýta atkvæðisrétt sinn í komandi kosningum, meðan einungis 13% gefa skýrt til kynna að þau hyggist ekki gera það. Könnunin sýnir enn fremur að stór hluti ungs fólks hefur á umliðnum mánuðum tekið þátt í einhvers konar viðburðum eða aðgerðum sem miða að því að hafa áhrif á samfélagsþróun. Þau málefni sem skora hæst hjá ungu fólki eru mannrétttindamál, loftslagsbreytingar og umhverfismál, heilbrigðis- og velferðarmál og jafnréttismál. Þá telur mikill meiri hluti að menntakerfið hafi undirbúið þau vel til að takast á við áskoranir sem þeim mæta á sviði lýðræðismála, svo sem er kemur að stafrænni færni og færni til að bera kennsl á falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Mikill meiri hluti telur jafnframt að menntakerfið að kennt þeim að vera umhugað um umhverfið.

Sjá nánar um könnunina hér.

Tilmæli og leiðbeiningar um hvernig hraða megi uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa

Ítarlega hefur verið fjallað um orkumál í Vaktinni á liðnum misserum. Endurnýjanleg orka er lykilþáttur í áætlun ESB við að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Litið er á markmið um kolefnishlutleysi sem efnahagslegt tækifæri fyrir ESB þar sem samkeppnishæfni sambandsins mun í sífellt auknum mæli velta á getu þess til að þróa og styðja við uppbyggingu á kolefnishlutlausum tækniiðnaði sem aftur mun gera umskipti yfir í græna orku mögulega.

Þann 13. maí sl. sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér uppfærð tilmæli og leiðbeiningar um hvernig hraða megi uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa í samræmi REPowerEU áætlunina, sem samþykkt var fyrir tæpum tveimur árum í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu en eitt megin markmið áætlunarinnar er að gera ESB óháð innflutningi á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt fjölda nýrra og uppfærðra tilmæla og leiðbeiningarskjala til að bæta, hraða og einfalda leyfisveitingarferli og uppboð fyrir uppbyggingu endurnýjanlegrar orkugjafa, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 10. febrúar 2023 um framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, sbr. og umfjöllun Vaktarinnar 24. mars 2024 um framfylgd þeirrar áætlunar.

Hraðari og einfaldari leyfisveitingar

Aukinn fyrirsjáanleiki við leyfisveitingar og hraðari leyfisveitingarferli eru til þess fallin að hvetja fyrirtæki í orkugeiranum til að auka fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum. Í uppfærðum tilmælum um hvernig flýta megi málsmeðferð við leyfisveitingar, sbr. og í meðfylgjandi leiðbeiningum um sama efni, er bent á leiðir til að bæta skipulags- og leyfisferli fyrir uppbyggingu endurnýjanlega orkugjafa og tengd innviðaverkefni og eru þar m.a. tekin dæmi um góða starfshætti auk þess sem mikilvægi stafrænna ferla er undirstrikað o.s.frv.

Í tengslum við framangreint hefur framkvæmdastjórn ESB einnig sent frá sér frekari leiðbeiningar um hvernig standa beri að vali á skilgreindum uppbyggingarsvæðum (e. acceleration areas). Hugtakið á sér stoð í endurskoðaðri tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa sem var endanlega samþykkt á vettvangi ESB í september í fyrra, sbr. umfjöllun um gerðina í Vaktinni 21. apríl 2023. Samkvæmt tilskipuninni eru þetta svæði þar sem fyrirfram hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé talið að uppsetning endurnýjanlegrar orkuvera hafi umtalsverð umhverfisáhrif og að á þeim grunni sé hægt að viðhafa einfaldari og hraðari málsmeðferð við veitingu leyfa. Til að tryggja farsæla skilgreiningu slíkra uppbyggingarsvæða er í leiðbeiningunum m.a. lögð áhersla á aðkomu haghafa og samráð við almenning.

Endurbætt uppboðshönnun

Uppboð gegna lykilhlutverki í uppbyggingu endurnýjanlegrar orkugjafa. Þegar uppboð eru vel hönnuð geta þau stutt við stöðugan og sjálfbæran vöxt á þessu sviði. Með því að útlista staðlaða þætti við hönnun uppboða fyrir uppbyggingu endurnýjanlega orkugjafa í sérstökum tilmælum og leiðbeiningum er stefnt að því að samhæfa og einfalda framkvæmd slíkra uppboða í samræmi við nýja reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net-Zero Industry Act), sbr. umfjöllun Vaktarinnar 16. febrúar sl. um þá reglugerð.

Samhliða útgáfu framangreindra tilmæla og leiðbeininga hefur framkvæmdastjórnin uppfært stafræna upplýsingagátt sína um fyrirhuguð uppboð og tengd atriði í þeim tilgangi að auka sýnileika og fyrirsjáanleika fyrir fjárfesta í virðiskeðju uppbyggingar á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Vorspá um efnahagshorfur í ESB og á evrusvæðinu

Vorspá framkvæmdastjórnar ESB um stöðu efnahagsmála kom út 15. maí sl.

Þar kemur fram að vöxtur á fyrsta ársfjórðungi 2024 hafi verið umfram væntingar en hann nam 0,3% á tímabilinu, bæði í ESB í heild og á evrusvæðinu. Spáð er að hagvöxtur í ESB á árinu 2024 verði 1% en 1,6% á næsta ári. Búist er við að verðbólga í ESB miðað við samræmda vísitölu neysluverðs fari úr 6,4% árið 2023 í 2,7% 2024 og lækki enn frekar árið 2025, eða í 2,2%.

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur í ár og árið 2025 verði fyrst og fremst drifinn áfram af vexti einkaneyslunnar, sem muni ráðast af vexti kaupmáttar launa og atvinnuþátttöku. Mikil sparnaðarhneigð almennings innan ESB gæti hins vegar dregið úr líkum á því að kaupmáttaraukningin leiði til aukinnar neyslu. Vöxtur fjárfestinga er aftur á móti að minnka, m.a. vegna samdráttar í nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Væntingar á markaði standa til þess að vaxtalækkanir verði hægari í nánustu framtíð en búist var við í vetur, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 1. mars sl. um vetrarspána. Í spánni nú er gert ráð fyrir að bati í utanríkisviðskiptum muni styðja við útflutning frá ESB en með sterkari eftirspurn innan sambandsins muni innflutningur aukast og draga úr framlagi útflutnings til hagvaxtar.

Verðbólga á mælikvarða samræmdrar vísitölu neysluverðs náði hámarki sínu innan evrusvæðisins í október 2022 þegar hún nam 10,6%. Í apríl 2024 er talið að hún hafi verið 2,4%. Spáin gerir ráð fyrir að verðbólgumarkmið náist fyrr á árinu 2025 en spáð hafði verið í vetur. Lækkun verðbólgu skýrist af lækkun vöruverðs en þó er búist við að orkuverð hækki lítillega og að verð á þjónustu lækki smám saman, samhliða minni þrýstingi til launahækkana. Spáin gerir ráð fyrir að verðbólga innan sambandsins í heild fylgi svipuðum ferli en verði þó örlítið hærri.

Þrátt fyrir lítinn hagvöxt síðustu misseri mældist atvinnuþátttaka 80,1% og hlutfall starfandi einstaklinga á aldrinum 20-64 ára mælist 75,5% í lok árs 2023, sem hvort tveggja eru hæstu gildi sem mælst hafa í ESB. Á sama tíma er atvinnuleysi með lægsta móti, eða 6,0%, og líklegt er talið að það verði svipað áfram. Framboð vinnuafls er mikið, einkum vegna innflytjenda, en eftirspurnin er engu að síður sterk. Búist er við að það hægist nokkuð um á vinnumarkaði á þessu ári og á því næsta og að það dragi úr vexti nafnlauna sem náði hápunkti á árinu 2023 með vexti upp á 5,8%.

Gert er ráð fyrir að halli í opinberum rekstri dragist saman í ár og á næsta ári, einkum vegna minni stuðnings til heimila og fyrirtækja vegna hás orkuverðs. Spáð er að skuldahlutfallið verði um 82,9% í ár en hækki um 0,4% árið 2025, einkum vegna hærri vaxtakostnaðar og lítils hagvaxtar.

Talið er að óvissa og líkur á því að áhættuþættir raungerist hafi aukist síðustu mánuði, einkum vegna þróunar í árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu og átakanna í Mið-Austurlöndum og vegna vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum almennt. Þá gæti orðið nokkur bið á vaxtalækkunum í Bandaríkjunum þar sem verðbólga hefur haldist há og því líkur á að skilyrði á fjármálamörkuðum heimsins verði þrengri en ella. Framangreint geti leitt til þess að verðbólgustig innan sambandsins muni lækka hægar en gert er ráð fyrir í spánni og að bið eftir vaxtalækkunum verði þar af leiðandi lengri. Þá eru líkur á að einhver aðildarríki ESB grípi til frekari aðhaldsaðgerða í fjárlögum sínum fyrir næsta ár en gert er ráð fyrir í spánni og gætu slíkar ráðstafanir haft áhrif á hagvöxt á næsta ári. Aftur á móti gæti hugsanleg minni sparnaðarhneigð á meðal almennings aukið neyslu auk þess sem uppbygging húsnæðis kann að verða meiri en gert er ráð fyrir. Loks eru áhættuþættir í tengslum við loftslagsbreytingar taldir fara vaxandi.

Schengen stöðuskýrsla fyrir starfsárið 2023-2024

Hinn 16. apríl sl. gaf framkvæmdastjórn ESB út Schengen stöðuskýrslu fyrir starfsárið 2023-2024 (e. Report on State of Schengen). Þetta er í þriðja skiptið sem framkvæmdastjórnin gefur út skýrslu af þessu tagi en fjallað var um fyrri tvær skýrslunnar í Vaktinni 22. júní 2022 og 26. maí sl. Skýrslan er liður í að efla eftirlit með innleiðingu og framkvæmd Schengen-samningsins og verður skýrslan m.a. til umræðu á fundi dóms- og innanríkisráðherra, á vettvangi ráðherraráðs ESB, í Lúxemborg þann 23. júní nk. Í skýrslunni er farið yfir framgang mála á vettvangi Schengen-samstarfsins á síðastliðnu ári ásamt því sem helstu forgangsmál næsta starfsárs, 2024-2025, eru tilgreind.

Schengen-svæðið er stærsta svæði sinnar tegundar í heiminum þar sem 450 milljón íbúar geta notið öruggrar og frjálsrar farar innan svæðisins.

Árið 2023 hélt Schengen-svæðið áfram að vera eitt mest heimsótta svæði heims með um hálfan milljarð heimsókna. Þá voru gefnar út um 10 milljón vegabréfsáritanir inn á svæðið. Þetta hefur mikil og góð áhrif á efnahag ríkjanna en ferðamannaiðnaðurinn er um 10% af vergri landsframleiðslu ESB ríkja og skapar atvinnu fyrir um 22,6 milljónir manna.

Skýrslan sýnir að almennt er Schengen-regluverkið innleitt með fullnægjandi hætti innan aðildarríkjanna, þó svo greina megi ákveðnar misfellur. Fram kemur Schengen-samhæfingarstjórinn (e. Schengen Coordinator), sem tók til starfa árið 2022, hafi heimsótt nokkur aðildarríki á árinu, þar á meðal Ísland, með það að markmiði að styðja betur við innleiðingu ríkjanna á regluverkinu, en við úttekt sem fram fór á Schengen-samstarfinu á Íslandi árið 2022 komu fram annmarkar og athugasemdir er snéru að lögreglusamvinnu en í skýrslunni er því lýst að Ísland hafi nú bætt þar úr og alvarlegir annmarkar séu ekki lengur til staðar. Samhæfingarstjórinn heimsótti jafnframt Litáen, Finnland og Lettland. Þá kemur m.a. fram að skráning í gagnagrunn um vegabréfsáritanir (VIS) sé ábótavant á meðal aðildarríkja, með undir 48% uppflettingar í kerfinu, en tiltekin ríki standi sig þó vel, þ.e. Belgía, Lettland, Lúxemborg, Holland og Ísland þar sem tilteknum þröskuldi, þ.e. um 80% uppflettinga, sé náð.

Samhliða útgáfu skýrslunnar lagði framkvæmdastjórn ESB í fyrsta sinn fram tillögu að tilmælum ráðherraráðs ESB fyrir komandi Schengen-starfsár (e. Proposal for a Council Recommendation for the 2024/2025 Schengen Cycle). Er tillögunni ætlað að greiða fyrir innleiðingu á þeim forgangsmálum sem reifuð eru í skýrslunni. Meðal annars um aukna viðbragðsgetu aðildarríkjanna, um aukið öryggi innan þeirra, um aukið viðnámsþol á ytri landamærum, m.a. með aukinni samvinnu við þriðju ríki, um eflingu baráttunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi og um aðgerðir til að koma í veg fyrir ólögmæta för og til að auka og virkja betur sameiginlegt kerfi er kemur að brottvísunum.

Líkt og fyrr segir verður skýrslan til umræðu á vettvangi ráðherraráðs ESB í Lúxemborg 13. júní nk. og er þar lagt upp með að ráðherrar samþykki fyrrnefnd ráðstilmæli.

Aukin samstaða á sviði netöryggismála

Þann 6. mars sl. náðist samkomulag um efni nýrrar reglugerðar sem miðar að því að auka samstöðu innan ESB á sviði netöryggismála (e. Cyber Solidarity Act) en í samkomulaginu felst einnig að gerðar verði tilteknar breytingar á reglugerð um netöryggi (e. Cyber Security Act). Fjallað var um tillögu að nýju reglugerðinni í Vaktinni 5. maí 2023.

Markmiðið með löggjöfinni er að auka viðbragðsgetu ESB og aðildarríkja þess er  kemur að stórfelldum netógnum og netöryggi almennt. Helstu þættir reglugerðarinnar snúa að því að auka vitund þvert á aðildarríkin um netöryggisógnir og efla viðbúnað og vernda innviði og netþjónustur sem metnir eru þjóðhagslega mikilvægir, s.s. heilbrigðisþjónustu, flutnings- og orkukerfi o.s.frv., með því að koma á fót sérstöku neyðarkerfi um netöryggi (e. cybersecurity emergency mechanism). Þá er ætlunin að efla samstöðu aðildarríkja sambandsins og samstilla hættustjórnun og viðbragðsgetu og loks stuðla að því að tryggja öruggt stafrænt umhverfi fyrir almenna borgara, fyrirtæki og stofnanir.

Evrópuþingið samþykkti málið endanlega fyrir sitt leyti 24. apríl sl. en enn er beðið eftir endanlegu samþykki ráðherraráðsins. Þegar endanlegt samþykki ráðsins liggur fyrir verður löggjöfin birt í Stjórnartíðindum ESB og tekur hún gildi innan sambandsins 20 dögum eftir birtingu.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum