Hoppa yfir valmynd
17. maí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stórbætt aðgengi að einstaklingsmiðuðu og sveigjanlegu stuðningstæki til að læra og æfa íslensku

Ný uppfærsla af smáforritinu Bara tala hefur litið dagsins ljós í kjölfar samnings sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gerði við fyrirtækið í byrjun árs. Samningurinn við Bara tala kvað á um að aðgangur að starfstengdum orðalistum innan heilbrigðis-, félags- og umönnunargreina yrði ókeypis til fjögurra ára fyrir þau sem stunda nám, starfa eða hyggjast starfa í heilbrigðis- og umönnunargreinum á Íslandi. Á þennan hátt yrði aðgengi stórbætt að einstaklingsmiðuðu og sveigjanlegu stuðningstæki til að læra og æfa íslensku.

Bara Tala er smáforrit sem nýtist öllum sem vilja læra íslensku. Forritið er nokkurs konar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, þar sem íslenskan er kennd í gegnum leik.

Nýja uppfærslan sem var kynnt í gær inniheldur meðal annars gagnvirka, starfstengda orðalista og persónulega þýðingarvél á fimm tungumálum: Ensku, spænsku, litháísku, úkraínsku og pólsku. Notendur geta nálgast stuðningsefni til að læra íslensku og æft sérsniðinn, starfstengdan orðaforða, út frá tali, hljóði og mynd, auk þess að sjá framgang sinn í rauntíma. Uppfærslan inniheldur þýðingarforrit sem getur umbreytt talmáli úr fyrrnefndum tungumálum yfir á íslensku. Notendur geta talað á sínu móðurmáli, smáforritið þýðir og sérstakur talgervill les upp setninguna á íslensku.

Í fyrstu atrennu er lögð áhersla á erlent starfsfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum til að efla öryggismenningu með bættri tungumálakunnáttu. Með lausninni mun erlent starfsfólk og starfsnámsnemendur eiga kost á að æfa sig í hagnýtri íslensku á sínu starfssviði, hvar og hvenær sem er.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að auka veg og vanda íslenskunnar með ýmsum aðgerðum og stórauka aðgengi fjölbreyttra hópa á öllum aldri og á öllum skólastigum að því að læra íslensku sem annað mál. Aðgengi að starfstengdum og gagnvirkum orðaforða og talæfingum eins og Bara tala býður upp á er mikilvægt skref í að setja íslensku í samhengi við veruleika innflytjenda og bjóða þá velkomna til þátttöku í íslensku málsamfélagi.“

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala:

„Við í Bara tala erum rosalega stolt af því að setja þessa uppfærslu í loftið. Það má með sanni segja að runninn sé upp dagur tímamóta í íslenskri máltækni því nú mun menntatæknilausn Bara tala bæði nýtast í kennslu en líka sem hagnýtt hjálpartæki á vinnustöðum. Árangur þeirra sem hafa æft sig í forritinu okkar, og eru farnir að geta bjargað sér í tungumálinu, er okkur mikil hvatning.“

Tengsl við þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu og fleiri verkefni

Til að safna saman viðeigandi orðalistum tengdi félags- og vinnumarkaðsráðuneytið Bara tala við móðurskóla á framhaldsskólastigi í hjúkrunargreinum hér á landi, þ.e. Fjölbrautaskólann við Ármúla og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Ráðuneytið tengdi einnig saman Bara tala og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu til að ná til erlends starfsfólks á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Samningurinn við Bara tala byggir meðal annars á þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 en þar ber félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ábyrgð á fimm aðgerðum. Ein þeirra snýr að starfstengdu íslenskunámi fyrir innflytjendur samhliða vinnu en í henni er lögð áhersla á starfstengdan orðaforða á einstaklingsmiðaðan og sveigjanlegan hátt.

Samningurinn tengist einnig stefnu í málefnum innflytjenda sem nú er í mótun, framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Jón Gunnar Þórðarson hjá Bara tala.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala.

Jón Gunnar kynnir nýju uppfærsluna á viðburði sem Mannauður, félags mannauðsstjóra, hélt hjá Akademis í gær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum